Um okkur
Gandur er vörulína sem er framleidd af fjölskyldufyrirtækinu Urðarketti ehf. á Syðra-Skörðugili, Skagafirði á Íslandi. Á Syðra-Skörðugili er stunduð loðdýrarækt, sauðfjárrækt, hrossarækt ásamt tamningum og þjálfun hrossa. Margra ára þekking á meðferð dýra er undirstaðan fyrir þróun á húðsmyrsli fyrir dýr.
Við höfum lengi vitað um jákvæð áhrif minnkaolíunnar á húð okkar og viljum kynna fólki fyrir einstaka eiginleika hennar. Við vinnum eftir þeirri hugsjón að dýrin okkar þurfi jafn góðar vörur og mannfólkið og sömu gæðakröfur eru gerðar til smyrlsa fyrir dýr og mannfólk.
Við viljum stunda umhverfisvæna landbúnaðargrein. Í staðinn fyrir að urða fituna sem fellur til við verkun skinna með tilheyrandi umhverfisálagi, búum við til minkaolíu sem getur komið fólki og dýrum til góðs. Olían hefur óvenjuhátt hlutfall af ómettuðum fitusýrum (ómega 3 og ómega 6), sem gefa henni einstaka eiginleika. Hún er græðandi og mýkjandi náttúruleg afurð fyrir húð bæði manna og dýra. Olían sogast hratt inn í húðina og skilur eftir sig einkennandi flauelsmjúka áferð. Klínískar rannsóknir hafa sýnt að minkaolían finnst í allt að fimmtánda dýptarlagi húðar klukkustund eftir að hún er borin á húð. Hún heldur sig samt að mestu á yfirborðinu og gefur raka, mýkt og vörn.
Í smyrslin bætum við handtíndum íslenskum jurtum ásamt bývaxi, E-vítamíni og ilmolíum. Í íslenskri flóru eru margar tegundir af þekktum lækningajurtum sem hafa verið nýttar við ýmsum kvillum hjá mönnum og dýrum í gegnum aldir. Hér á Íslandi er að finna gnægð öflugra lækningajurta og geyma margar þeirra virk efni með örveruhemjandi, bólgueyðandi og andoxandi virkni.
Smyrslin eru framleidd samkvæmt íslenskum og evrópskum reglugerðum um snyrtivörur og hafa verið prófuð og greind í samvinnu við Matís, með stuðningi frá Tækniþróunarsjóði Rannís, Vaxtasamningi Norðurlands vestra, Impru og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.
Allir á Syðra-Skörðugili hafa lagt sitt á vogaskálarnar við þróun vörulínunnar. Í fjölskyldunni eru afreksfólk í hestamennsku, dýralæknir, ráðunautar, bændur og fólk sem nýtur sín best í hestaferðum úti í náttúrunni.